Týndur farangur

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:45
Íslenska

Til ECC leitaði maður sem hafði flogið með íslenskum flugrekanda frá Keflavík til Varsjár með millilendingu í Zurich í Sviss.  Maðurinn hafði innritað tösku sína í flugið en fékk hana ekki afhenta við komuna til Varsjár og tilkynnti því tapaðan farangur við komu sína þar. Níu dögum síðar sendi maðurinn flugfélaginu tölvupóst þar sem hann fór fram á bætur fyrir töskuna ásamt innihaldi hennar og fékk hann svar til baka um að málið væri í skoðun og jafnframt var hann beðinn um að fylla út sérstakt eyðublað um nákvæmt innihald töskunnar og áætlað verðmæti. Tæpum tveimur mánuðum síðar hafði hann enn ekkert frekara svar fengið frá flugfélaginu og sendi hann því ítrekun.  Þá barst honum svar til baka um að listinn með innhaldi töskunnar væri móttekinn en enn væri verið að freista þess finna töskuna.  Sagt var að samband yrði haft við hann fljótlega vegna málsins. Þremur mánuðum seinna hafði maðurinn enn ekki móttekið bætur vegna töskunnar né hafði verið haft samband við hann eins og lofað var og leitaði þá maðurinn til ECC í Póllandi sem áframsendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC, rúmum mánuði eftir að ECC á Íslandi hafði móttekið málið fékk maðurinn greiddar þær bætur er hann taldi réttilegar fyrir töskuna og innhald hennar eða 486 evrur.

ECC Categories: