Kostnaður vegna biðar eftir flugi

Föstudagur, 1. apríl 2016 - 10:30
Íslenska

Tveir breskir ferðamenn áttu bókað flug frá Keflavík til London en því flugi var aflýst og flugfélagið endurbókaði ferðamennina með öðru flugi sólarhring síðar. Það vildi þó ekki betur til en svo að mistök áttu sér stað í endurbókuninni þannig að þeir komust ekki heldur með seinna fluginu. Flugfélagið bauð þeim annað flug sólarhring seinna, en þar sem ferðamennirnir höfðu ekki tök á að bíða lengur neyddust þeir til að kaupa flug með öðru flugfélagi síðar um daginn. Vegna aflýsingarinnar urðu þeir fyrir ýmsum aukakostnaði, svo sem hótel- og fæðiskostnaði auk kostnaðar vegna bílaleigu. Ferðamennirnir leituðu til ECC-netsins eftir aðstoð við að fá þennan kostnað endurgreiddan. Flugfélagið vildi ekki í upphafi fallast á að því  bæri að greiða alla kröfu ferðamannanna, en eftir milligöngu ECC á Íslandi, sem vísaði m.a. í ákvarðanir Samgöngustofu máli sínu til stuðnings, fengu ferðamennirnir endurgreiddan útlagðan kostnað sem nam um 278 evrum, endurgreiðslu ónotaðra flugmiða að upphæð 205 evrur ásamt því að fá staðlaðar skaðabætur vegna seinkunarinnar í samræmi við Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega að upphæð 400 evrur á farþega, eða 800 evrur samtals. Samtals fengu bresku ferðamennirnir því, eins og þeir áttu rétt á, tæpar 190.000 krónur frá flugfélaginu eftir milligöngu ECC á Íslandi. 

ECC Categories: