Allar reynslusögur

Yfirbókun til Alicante

Íslenskur ferðamaður átti bókað flug frá Alicante til Keflavíkur, en flugfélagið aflýsti fluginu og bókaði hann með öðru flugfélagi í staðinn, með millilendingu í London. Þegar ferðamaðurinn mætti í flugið var honum hinsvegar neitað um far þar sem flugið væri yfirbókað og hann í staðinn bókaður í annað flug sem fór síðar. Ferðamaðurinn var ekki sáttur við það, enda mættur vel tímanlega og með miða sem hitt flugfélagið var búið að bóka fyrir hans hönd. Ferðamaðurinn sendi kröfu á flugfélagið sem neitaði honum um far, en þar sem hann fékk aldrei svör leitaði hann til ECC á Íslandi. Starfsmenn ECC á Íslandi sendu málið til systurstöðvar sinnar í Bretlandi sem hafði samband við flugfélagið. Málalok urðu þau að flugfélagið féllst á að greiða skaðabætur vegna neitunar um far.


Endurgreiðsla flugmiða

Íslensk kona átti bókað flug með norsku flugfélagi, en fluginu var svo aflýst nokkrum vikum fyrir áætlaða brottför. Hún sendi erindi á flugfélagið og krafðist þess að fá flugmiðann endurgreiddan, en tilraunir hennar báru ekki árangur. Hún kom þá á skrifstofu ECC á Íslandi og óskaði eftir aðstoð í málinu. Starfsfólk ECC á Íslandi aðstoðaði konuna við að leggja fram kröfu um endurgreiðslu og málið fékk á endanum farsælan endi þar sem hún fékk endurgreiddan flugmiðann líkt og hún átti rétt á.


Bensín í stað dísel

Nokkrir austurrískir ferðamenn leigðu bíl af íslenskri bílaleigu en lentu í því óhappi að setja bensín á bifreiðina, en hún gekk fyrir dísel eldsneyti. Vegna þessa skemmdist bifreiðin og bílaleigan rukkaði ferðamennina um 4.000 evrur, en lofaði að endurgreiða þeim ef raunverulegur viðgerðarkostnaður væri lægri. Ferðamennirnir fengu þó aldrei lokaviðgerðarreikninginn og leituðu því til ECC eftir aðstoð við að fá reikninginn og fá endurgreitt ef raunverulegur viðgerðarkostnaður væri lægri. Eftir að ECC á Íslandi setti sig í samband við bílaleiguna fengu ferðamennirnir lokaviðgerðarreikninginn, sem var hærri en það sem bílaleigan var búin að rukka ferðamennina fyrir. Þá kom í ljós bílaleigan réðst í raun í mun umfangsminni viðgerðir en bílaumboðið og framleiðandi bifreiðarinnar ráðlögðu. ECC á Íslandi gat því staðfest að bílaleigan væri ekki að hlunnfara ferðamennina og þeir fengu öll nauðsynleg skjöl í málinu.


Skemmd ferðataska

Írskur ferðamaður sem flaug frá Keflavík til Dyflinnar tók eftir því þegar hann vitjaði ferðatösku sinnar á farangursbandinu að hún hafði skemmst í fluginu og leit út fyrir að hafa fengið á sig högg. Hann tilkynnti um skemmdirnar strax á flugvellinum og sendi svo tölvupóst á flugfélagið án þess að fá úrlausn á máli sínu. Ferðamaðurinn setti sig þá í samband við ECC á Írlandi sem áframsendi málið til ECC á Íslandi sem hafði samband við flugfélagið. ECC á Íslandi sendi erindi á flugfélagið á föstudegi og fékk svar á mánudeginum um að flugfélagið samþykkti að greiða fyrir tjónið á töskunni líkt og ferðamaðurinn fór fram á, ásamt því að endurgreiða farangursgjaldið. Ferðamaðurinn fékk því greiddar tæpar 22.000 kr.


Endurgreiðsla berst ekki

Austurrískur ferðamaður leigði bílaleigubíl á Íslandi í gegnum vefsíðu og borgaði fyrirfram. Hann neyddist til að afbóka leiguna áður en hann kom til landsins, en  samkvæmt skilmálum síðunnar var heimilt að afbóka og fá endurgreitt. Ferðamaðurinn fór fram á að bílaleigan stæði við skilmálanna og endurgreiddi honum það sem hann hafði greitt fyrirfram. Endurgreiðslan barst aldrei, en bílaleigan hélt því fram að búið væri að endurgreiða. ECC á Íslandi hafði samband við bílaleiguna og í ljós kom að bílaleigan hafði í raun sent ósk um endurgreiðslu til kortafyrirtækisins en af einhverjum ástæðum skilaði hún sér ekki til Austurríkis og ferðamannsins. Bílaleigan sendi því aftur endurgreiðslubeiðni og endurgreiðslan skilaði sér á endanum til ferðamannsins. 


Farangur skilar sér ekki

Finnskur ferðamaður átti bókað flug frá Toronto til Helsinki með millilendingu í Keflavík, en þegar hann lenti í Finnlandi kom í ljós að farangurinn hafði ekki skilað sér. Flugfélagið lofaði að koma farangrinum til Nýja Sjálands þangað sem ferðamaðurinn var að fara daginn eftir. Það tók flugfélagið hins vegar níu daga að koma farangrinum á leiðarenda. Loksins þegar farangurinn barst þurfti maðurinn til að kaupa sér rútumiða svo hann gæti náð í farangurinn á flugvöllinn. Hann óskaði eftir endurgreiðslu á þeim kostnaði sem hann varð fyrir vegna tafa á farangrinum en fyrirtækið varð ekki við þeirri ósk. Hann leitaði þá eftir aðstoð ECC-netsins sem hafði samband við flugfélagið sem endurgreiddi ferðamanninum kostnaðinn, um 120 evrur.