Um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf

Mjög mismunandi er hvaða reglur gilda í Evrópu um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf en hægt er að fá upplýsingar um það með því að hafa samband við ECC-netið.  Það er sameiginlegt með öllum löndunum á ESS-svæðinu að hægt er að hætta við kaup á vöru sem keypt er í gegnum netið innan 14 virkra daga frá afhendingu vörunnar.  

Hér á landi eru til verklagsreglur um skilarétt, inneignarnótur og gjafabréf. Þessar reglur eru leiðbeinandi og er verslunum því ekki skylt að fara eftir þeim. Verslanir geta sett sér sínar eigin reglur um skilarétt og samkvæmt lögum er verslunum ekki skylt að taka tilbaka ógallaðar vörur, þ.e. nema þær séu keyptar í húsgöngu- eða fjarsölu, t.a.m. á netinu. Sé um að ræða gjöf eða vöru sem gæti þurft að skila er gott að kynna sér vel hvaða verklagsreglur verslunin hefur sett sér. Sé hugmyndin að gefa gjafabréf í afmælis- eða jólagjöf er einnig mikilvægt að skoða hvort gildistíminn er nægilega rúmur til að líklegt sé að viðtakandinn nái að nýta sér bréfið.

Meginatriði verklagsreglnanna eru:

  • Neytandi á að minnsta kosti 14 daga skilarétt.
  • Vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil.  
  •  Inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru. 
  •  Gjafabréf og inneignarnótur gilda í allt að 4 ár frá útgáfudegi.  
  • Skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið.

Skil vöru á útsölu

Ef vara er keypt skömmu áður en útsalan hefst eða innan við 14 daga fyrir upphaf útsölunnar á að miða við verð vörunnar á útsölunni en ekki upphaflegt verð nema seljandi samþykki. Það getur reynt á þetta varðandi jólagjafir ef gjöfin er keypt skömmu fyrir jól og útsalan hefst strax eftir jólin. Þá er rétt að hafa í huga að kaupandinn á rétt á inneignarnótu sem miðar við upprunalegt verð vörunnar. Í sumum tilvikum getur verið heppilegra að þiggja inneignarnótuna og koma aftur í verslunina þegar útsölunni er lokið. Inneignarnótu sem gefin er út innan 14 daga fyrir útsölu eða meðan útsala stendur yfir er ekki heimilt að nota á útsölu nema með samþykki seljanda. 

 Gjafabréf eiga að gilda á útsölu rétt eins og um peninga væri að ræða.

Gjafamerki á gjafir

Við ráðleggjum fólki að biðja um sérstakt gjafamerki en þegar vöru með gjafamerki er skilað þarf ekki að leggja fram kassakvittun eða aðra sönnun fyrir því hvar og hvenær varan var keypt.

 Rétt er að benda á að sumar verslanir taka þóknun fyrir að skipta vörum sem eru keyptar annars staðar. Verslunum er þetta heimilt en við bendum fólki á að spyrja afgreiðslufólk hvort hægt verði að skipta vörunni og biðja um gjafamerki þannig að viðtakandi gjafarinnar viti hvert hann á að snúa sér vilji hann skipta.

Gildistími á inneignarnótum og gjafabréfum 

Samkvæmt reglunum er gildistími á gjafabréfum 4 ár sem er hefðbundinn fyrningarfrestur. Það sama gildir um inneignarnótur þó með þeim fyrirvara að seljandi getur takmarkað gildistíma inneignarnóta niður í eitt ár ef það er tekið fram á nótunni sjálfri. Þar sem verklagsreglurnar eru ekki bindandi geta seljendur sem ekki fylgja þeim ákveðið sjálfir gildistíma á gjafabréf eða inneignarnótur og algengur gildistími er eitt ár. Við ráðleggjum fólki að kaupa ekki gjafabréf með mjög stuttan gildistíma, en dæmi eru um að gjafabréf hafi 3 mánaða gildistíma. Tvö ár ættu að vera lágmark. Þá beinum við einnig þeim tilmælum til neytenda að nota gjafabréf og inneignarnótur fyrr en síðar því verði seljandi gjaldþrota er hætt við að peningarnir tapist. 

ECC Flokkun: 
Vörur & þjónusta