Svik á netinu

ECC Ísland fær mikið af fyrirspurnum frá fólki sem fær tilkynningar í tölvupósti um að það hafi unnið hitt eða þetta í happdrætti. Oft er um verulegar fjárhæðir - eins og milljón pund eða milljón evrur - að ræða. Fólk skyldi þó hafa varann á því alla jafna er um svindl að ræða. Tilkynningar um vinninga berast í tölvupósti og til að vitja vinningsins þarf að senda ýmsar persónuupplýsingar. En það er ekki nóg - oftar en ekki þarf að senda peninga út til að fá vinninginn greiddan - þessar peningagreiðslur eru sagðar vera vegna bankakostnaðar, trygginga, skatta eða annars slíks. Iðulega er svo beðið um meiri og meiri pening og alltaf er stóri vinningurinn alveg að koma! Erlendis eru mörg dæmi þess að fólk hafi tapað stórum fjárhæðum vegna svona ,,happdrætta" og afar erfitt er að endurheimta fé sem tapast með þeim hætti. Fólk er því hvatt til að fara varlega og líta gagnrýnum augum á vinninga og gylliboð sem berast gegnum internetið. 

ECC Flokkun: 
Kaup á netinu / Eftirlit & úrræði