Símnotkun erlendis

Innan EES-svæðisins er í gildi reglugerð um verðþak á reikisímtöl, þ.e. ákveðið þak er sett á það hvað símafyrirtæki mega rukka fyrir millilandasímtöl. Þrátt fyrir það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar þarfasti þjóninn er tekinn með í fríið:

Ef dvalið er í landi innan EES-svæðisins nálægt landamærum lands sem er ekki í ESB, er hætta á að farsíminn tengist sjálfkrafa símafyrirtæki í síðarnefnda landinu. Í því landi er reglugerðin um hámarksverð á reikisímtölum ekki í gildi og verðlag því frjálst. Mikilvægt er því að fylgjast með því hvaða fyrirtæki síminn tengist enda getur símreikningurinn í slíkum tilvikum orðið skuggalega hár.

Kannið vel hvaða „öpp“ eru í gangi í símanum, sér í lagi ef um snjallsíma er að ræða. Best er að slökkva á nettengingu símtækja þegar dvalið er erlendis. Jafnvel þó netið sé ekkert notað er síminn að hlaða niður gögnum af netinu og getur slíkt leitt til mikils kostnaðar.  Athugið þó að samkvæmt reikireglum eru einnig þök á gagnaniðurhali erlendis.

Aftengið talhólf. Það kostar að taka á móti símtali í talhólf meðan dvalið er erlendis

 Varist SMS – það getur verið ódýrara að hringja stutt símtal heldur en að senda SMS fram og til baka, en það kostar jafnmikið að senda SMS erlendis frá og að taka á móti símtali í eina mínútu. Einnar mínútu símtal ætti svo að koma til skila mun meiri upplýsingum en sms.

 Rétt er svo að benda á að reglur um verðþak á reikisímtölum gilda aðeins innan EES-svæðisins, en umtalsvert dýrara er t.d. að hringja heim frá Bandaríkjunum.

ECC Flokkun: 
Ferðalög