Neytendur á ferð og flugi – skaðabætur vegna seinkunar

Komi til tafa eða aflýsingar á flugi eiga farþegar margvíslegan rétt. Þessi réttur byggir á Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega og er því sambærilegur í öllum ríkjum EES og einnig þó flogið sé frá öðrum löndum til EES-svæðisins, ef flugrekandinn er frá EES-svæðinu. Þannig eiga flugfarþegar t.a.m. rétt á ýmiss konar aðstoð vari seinkun í ákveðinn tíma eða flugi er aflýst, t.d. hressingu, gistingu ef þörf er á og ferðum til og frá flugvelli. Einnig eiga flugfarþegar, samkvæmt ákveðnum reglum, rétt á endurgreiðslu flugs eða breytingu á flugleið til að komast til ákvörðunarstaðar. 

 

Staðlaðar skaðabætur

Auk aðstoðar og annars flugs eða endurgreiðslu flugmiða geta farþegar, sé flugi aflýst eða því seinkað um þrjá tíma eða meira eða farþega neitað um far, átt rétt á stöðluðum skaðabótum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, en fjárhæð bóta er á bilinu 250-600 evrur, eftir því hvað flugið sem um ræðir er langt. Í þessum tilvikum þurfa farþegar í sjálfu sér ekki að sýna fram á tjón sitt. Flugrekandi getur verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að seinkunin eða aflýsingin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið viðhafðar. Þetta er þó undantekning frá meginreglunni um að farþegar eigi rétt á skaðabótum og ber að túlka hana þröngt. Sé litið til dóma Evrópudómstólsins og ákvarðana Samgöngustofu er ljóst að mikið þarf að koma til svo flugrekandi sé laus undan bótaskyldu.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2013

Í þessu máli fór Icelandair fram á að ákvörðun Flugmálastjórnar (nú Samgöngustofa) yrði ógilt en stofnunin hafði gert flugfélaginu að greiða farþega bætur vegna aflýsingar flugs frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Málsatvik voru í stuttu máli þau að vegna bilunar sem kom upp í fyrra flugi um hálfum sólarhring fyrir áætlaða brottför var umræddu flugi aflýst og ekki var farið í loftið fyrr en sólarhring eftir áætlaða brottför. Flugmálastjórn byggði ákvörðun sína á því að jafnvel þó einu flugi sé aflýst vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem geti valdið því að farþegar þess flugs eigi ekki rétt á skaðabótum teljist sú bilun ekki óviðráðanlegar aðstæður vegna næsta flugs sem vélin eigi að fara í. Þá hafi liðið tæpur sólarhringur frá því viðgerð hafi lokið og þar til umrætt flug hafi farið í loftið og Icelandair hefði farið margar ferðir milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar á þeim tíma. Dómurinn rakti þær reglur sem gilda og vísaði til fordæma Evrópudómstólsins og hafnaði kröfu Icelandair, enda hefði flugfélagið ekki sýnt fram á að ómögulegt hefði verið að koma í veg fyrir aflýsinguna, jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar.

Í dómnum segir m.a.: „Annars vegar þarf flugrekandi að sanna að aflýsingin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna og hins vegar þarf hann að sanna að hann hefði ekki getað afstýrt þeim óviðráðanlegu aðstæðum er leiða til aflýsingar, jafnvel þótt hann hefði gert allar nauðsynlegar ráðstafanir. … Til dæmis virðist ljóst að Evrópudómstóllinn álítur að tæknileg vandamál teljist almennt ekki til óviðráðanlegra aðstæðna samkvæmt fyrrnefnda skilyrðinu. Þá hefur Evrópudómstóllinn talið að í síðarnefnda skilyrðinu felist að flugrekandi verði að sanna að þótt hann hefði nýtt öll sín úrræði, með tilliti til starfsfólks eða tækjabúnaðar, og þá fjármuni sem hann hafði til umráða, hefði honum skýrlega ekki verið fært – nema með því að færa óbærilegar fórnir í ljósi getu hans á umræddum tíma – að afstýra því að hinar óviðráðanlegu aðstæður sem hann stóð frammi fyrir leiddu til aflýsingar“.

 

Skortur á upplýsingum

Það er gott að eiga ákveðinn rétt sem flugfarþegi. Hins vegar er það svo að fæstir nýta sér réttindi sem þeir vita ekki af. Í Evrópureglugerðinni um réttindi flugfarþega er skýrt kveðið á um skyldu flugrekenda til að afhenda öllum farþegum sem lenda í aflýsingu, eða a.m.k. tveggja klukkustunda seinkun, eða því að vera neitað um far, skriflegar reglur um skaðabætur og aðstoð í samræmi við reglugerðina. Svo virðist sem töluvert sé um að flugrekendur brjóti gegn þessu ákvæði og hefur Samgöngustofa oftsinnis í ákvörðunum sínum beint þeim tilmælum til flugrekenda að þeir fari að þessu ákvæði og upplýsi farþega um rétt þeirra.

 

Ákvarðanir Samgöngustofu: Hvað eru óviðráðanlegar aðstæður?

Fallist á bótakröfur:

Mál 1/2016: A og B áttu flug með Icelandair frá Orlando til Keflavíkur, en brottför flugsins seinkaði um sex klukkustundir. Skýring flugfélagsins var sú að flugi frá Keflavík til Orlando daginn áður hefði seinkað vegna veðurs. Vegna þessa hefði áhöfnin sem átti að fljúga í fluginu frá Orlando runnið út á tíma og vegna reglna um lágmarkshvíldartíma hefði ekki verið hægt að fara fyrr. Samgöngustofa leit svo á, og vísaði jafnframt til fyrri ákvarðana, að þar sem ljóst væri að hinar óviðráðanlegu aðstæður (þ.e. slæmt veður) hefðu verið liðnar hjá þegar flugið frá Orlando var áætlað leysti þessi víxlverkan flugfélagið ekki undan bótaskyldu. Var I því gert að greiða A og B 600 evrur hvoru í skaðabætur.

Mál 4/2016: Brottför flugs A og B með Primera Air frá Keflavík til Jerez á Spáni seinkaði um sjö klukkustundir. P bar því við að seinkunin hefði verið vegna bilunar í rúðuþurrkum sem teldist óviðráðanleg og því væri bótaskylda ekki til staðar. Samgöngustofa gerði P hins vegar að greiða A og B 400 evrur hvoru, enda væri, í samræmi við dóma Evrópudómstólsins, ekki hægt að fella vélarbilanir undir óviðráðanlegar aðstæður sem leystu flugrekanda undan bótaskyldu.

Mál 7/2016: Komutíma flugs A og B með WOW Air til Boston seinkaði um þrjá tíma og tvær mínútur. WOW var gert að greiða A og B 600 evrur hvoru vegna seinkunarinnar en ekki var fallist á kröfu þeirra um endurgreiðslu annars kostnaðar, t.d. vegna tapaðs tengiflugs þar sem flugrekandi bæri ekki ábyrgð á sjálfstæðu tengiflugi farþega.

Mál 13/2016: Komutíma flugs A, B og C með Primera Air frá Kanarí til Keflavíkur seinkaði um u.þ.b. sólarhring. Ástæðan var sú að vegna slæms veðurs á Akureyri og Egilsstöðum var ekki hægt að nýta flugvellina þar sem varaflugvelli. Því var næsti varaflugvöllur Glasgow, en til að mögulegt væri að lenda þar þurfti að taka aukaeldsneyti í Shannon á Írlandi. Þegar eldsneytisáfyllingu þar var lokið hafi áhöfnin hins vegar ekki mátt vinna lengur, vegna reglna um leyfilegan vinnutíma, og því hafi verið flogið þaðan til Keflavíkur daginn eftir. Samgöngustofa taldi að flugfélagið hefði getað brugðist fyrr við slæmri veðurspá, eða hraðað eldsneytisáfyllingunni í Shannon, en einhverjar tafir urðu á henni, og þannig gert ráðstafanir til að komast hjá því að áhöfnin rynni út á tíma. Því var P gert að greiða A, B og C 400 evrur hverju í skaðabætur.

Bótakröfum hafnað:

Mál 2/2016: A, B, C og D fóru fram á skaðabætur frá Air Berlin en flugi þeirra frá Keflavík til Berlínar með flugfélaginu seinkaði um 14 klukkustundir. Málsatvik voru þau að við brottför frá Keflavík fékk vélin fugl í hreyfilinn og þurfti því að snúa henni við. Önnur vél var send til Keflavíkur og fór hún í loftið þaðan 14 klukkustundum eftir áætlaðan brottferðartíma. Mat Samgöngustofu var það að fluginu hefði seinkað vegna ófullnægjandi flugöryggis og það leysti flugfélagið undan bótaskyldu.

Mál 6/2016: A og B töldu að flugi þeirra með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur hefði seinkað um þrjár klukkustundir og 25 mínútur og kröfðust bóta vegna þess. Samkvæmt gögnum frá Icelandair og Isavia þótti þó ljóst að seinkunin hefði einungis varað í tvær klukkustundir og 34 mínútur og þar af leiðandi var bótakröfu A og B hafnað.

Mál 8/2016: A, B, C og D áttu bókað flug með Easyjet en fluginu var aflýst vegna veðurs og fór að endingu í loftið um 14 klukkustundum eftir áætlaða brottför. A, B, C og D fóru fram á skaðabætur vegna þessa. Samgöngustofa taldi að ef flugstjóri liti svo á að aðstæður væru þannig að ekki væri fært að fara í loftið yrði að virða þá ákvörðun. Skipti þá ekki máli þó aðrar flugvélar hefðu farið frá Keflavík á sama tíma. Var því fallist á að um óviðráðanlegar aðstæður hefði verið að ræða og bótakröfu hafnað. 

ECC Flokkun: 
Flugfarþegar