Ný útgáfa ferða „apps“ ECC-netsins

ECC-netið hefur nú gefið út endurbætta útgáfu af snjallsímaforriti (app) sínu fyrir ferðamenn, ferða „appi“ ECC-netsins. Forritið er gefið út á 25 tungumálum, eða öllum tungumálum sem töluð eru innan ESB auk norsku og íslensku, en um samstarfsverkefni allra 30 ECC stöðvanna, undir forystu ECC í Þýskalandi, er að ræða. Forritið er ókeypis og notkun þess er ekki háð nettengingu, svo enginn kostnaður á að vera samfara notkun þess.

Hvenær gagnast smáforritið?
Ferðamenn geta lent í alls kyns óvæntum uppákomum og erfiðum aðstæðum:

Að kaupa eitthvað í fríinu sem reynist svo vera gallað.
Lenda í vandræðum í tengslum við leigu á bíl erlendis.
Að komast að því að hótelherbergið sem var pantað er ekki til.
Að fluginu heim seinkar óvænt.
Að lestarferðinni sem búið var að bóka er aflýst.

Og svo mætti lengi telja. Við slíkar aðstæður, og ótal fleiri, veitir forritið ferðalöngum leiðbeiningar um rétt þeirra á þeirra eigin tungumáli – en jafnframt getur það aðstoðað við samskipti við seljanda.

Standi tungumálaörðugleikar þannig í vegi fyrir því að hægt sé að kvarta við seljanda er auðvelt að sýna honum bara textann eins og hann birtist á símanum – á hans eigin tungumáli!

Forritið ætti því að gagnast vel öllum þeim sem hyggja á ferðalög um Evrópu – og ekki síður þeim sem hafa áhuga á öðrum tungumálum og vilja einfaldlega skoða hvernig maður segir „fluginu mínu seinkaði“ á rúmensku! Einnig hefur forritið að geyma upplýsingar um öll sendiráð í Evrópu auk upplýsinga um neyðarnúmer og heilbrigðisþjónustu.

Ef forritið tekur svo ekki á öllum ágreiningsefnum sem upp koma geta ferðamenn einfaldlega leitað til ECC stöðvarinnar í sínu heimalandi. Í undantekningartilvikum getur svo verið að reglur um réttindi farþega séu ekki eins í öllum Evrópulöndunum, t.a.m. hafa Noregur og Ísland ekki enn innleitt reglur um réttindi farþega í skipum og áætlunarbifreiðum. Komi upp einhver vafaatriði í samskiptum við seljendur veitir ECC-netið neytendum leiðbeiningar og aðstoð án endurgjalds!

Hvað er nýtt?
Ferða „app“ ECC-netsins kom fyrst út fyrir ári síðan en nýja útgáfan er verulega endurbætt:

Ný og endurbætt hönnun
Stærra letur
Bætt virkni (sérstaklega varðandi þýðingar) og betra notendaviðmót.
Endurbætt efni.
Nýr flokkur með mikilvægum heimilisföngum og símanúmerum viðeigandi ECC-stöðva

Forritið má nálgast hér:

Fyrir Apple
Fyrir Android
Fyrir Windows

Sjá frekari upplýsingar um ferða „appið“

„Fact sheet“ um ferðaappið má nálgast neðar á síðunni

 

ECC-app

ECC-app, by admin

ECC-app, by admin

ECC Flokkun: 
Ferðalög / Flugfarþegar / Vörur & þjónusta