Falsaðar vörur

Lítið er um að falsaðar merkjavörur eða eftirlíkingar séu boðnar til sölu hérlendis en þegar farið er í sumarfrí erlendis er algengt að kaupþyrstum ferðalöngum sé boðið að fjárfesta í ótrúlega ódýrum skartgripum, leðurklæðnaði eða snyrtivörum. Víða er til dæmis hægt að kaupa stórt glas af fínasta ilmvatni á innan við 500 kr., eða hátt í tuttugu sinnum sinnum ódýrara en í fríhöfninni hér.

Það er gaman að gera góð kaup en neytendur þurfa að vera vakandi fyrir því að ekki er allt sem sýnist. Panasonic-samstæðan heitir ef til vill, þegar betur er að gáð, Panascanic, fíni leðurjakkinn er úr plasti og Rólexúrið bilar á mjög dularfullan hátt. Eftirlíkingar eru oft listilega vel gerðar og þarf enginn að skammast sín fyrir að falla fyrir slíku.

Ef verð á merkjavöru er grunsamlega lágt er gott að spyrjast fyrir um ástæðuna. Er um útsölu að ræða? Er varan gölluð eða ef til vill fölsuð? Ef maður er enn í vafa er svo ágætt að spyrja bara hreint út hvort um eftirlíkingu sé að ræða.

Gott er að biðja ætíð um kvittun fyrir kaupunum og geyma hana. Slíkt auðveldar neytendum að leita réttar síns ef þörf krefur. Sérstaka varúð þarf að sýna gagnvart merkjavöru sem boðin er til sölu á mörkuðum og af götusölum, sér í lagi þar sem erfiðara er að hafa upp á slíkum söluaðilum síðar meir.

Ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt er það yfirleitt raunin!

Sums staðar innan ESB, eins og á Ítalíu geta kaup á óekta merkjavöru varðað sektum. Að framleiða og selja vörur á fölskum forsendum, án leyfis rétthafa, er svo aldrei í lagi. Ferðamenn eru hvattir til að leita sér upplýsinga (t.d. hjá ECC-netinu, fararstjórum eða á netinu) um hvaða reglur gilda í því landi sem ætlunin er að heimsækja.

ECC Flokkun: 
Ferðalög / Vörur & þjónusta