Euro Business Guide

Á hverju ári fær ECC Ísland nokkur erindi frá fyrirtækjum sem hafa skráð sig í Euro Business Guide eða European City Guide. Þar sem yfirleitt er um fyrirtæki en ekki einstaklinga að ræða getur ECC-netið ekki tekið þessi mál til meðferðar að öðru leyti en því að veittar eru almennar ráðleggingar.

 Euro Business Guide virðist vera svikamylla en fyrirtækjum er - að því er virðist þeim að kostnaðarlausu - boðið að skrá sig í bók eða bækling, Euro Business Guide, og auglýsa sig með þeim hætti. Eftir að gengið hefur verið frá skráningu berst þó reikningur að upphæð u.þ.b. 1000 evrur sem er sagt vera árgjald fyrir skráninguna. Ef fyrirtækin borga ekki er þeim svo hótað lögsókn.

Samtök verslunar og þjónustu hafa eitthvað verið með þessi mál til skoðunar og víða erlendis eru reknar heimasíður þar sem tekið er á móti kvörtunum vegna þessa. Eftir því sem ECC kemst næst er best að neita því alfarið að greiða reikninginn og skrifa þess í stað bréf til Euro Business Guide þar sem reikningnum er mótmælt og samningnum sagt upp á þeim grundvelli að um blekkjandi og villandi samningsskilmála hafi verið að ræða.

Best er þó auðvitað að hafa varann á gagnvart svona gylliboðum og sleppa því hreinlega að skrá sig!

ECC Flokkun: 
Kaup á netinu / Eftirlit & úrræði