Air Berlin lýsir yfir greiðsluþroti

Samkvæmt ECC í Þýskalandi lýsti þýska flugfélagið Air Berlin þann 15. ágúst 2017 yfir greiðsluþroti. Enn sem komið er hefur fyrirtækið ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Hvað þýðingu hefur greiðsluþrotið fyrir þá farþega sem nú þegar eiga bókuð flug með Air Berlin?
Flugfélagið hefur fengið fjármagn frá þýskum yfirvöldum til að halda starfsemi áfram næstu þrjá mánuði. Þetta þýðir að enn sem komið er ættu þeir farþegar sem þegar hafa bókað flug með flugfélaginu ekki að hafa áhyggjur af því að flugi þeirra verði aflýst vegna greiðsluerfiðleikanna.

Get ég afbókað flugið mitt til að koma í veg fyrir að verða fyrir óþægindum verði flugið fellt niður síðar vegna greiðsluþrotsins?
Því miður er svarið við þessari spurningu nei. Það eitt að flugfélag hafi lýst yfir greiðsluþroti veitir farþegum ekki aukinn rétt til að afbóka flugmiða sína.

Hvað gerist ef flugi með Air Berlin er seinkað, aflýst eða mér er neitað um far?
Farþegar eiga ýmis réttindi þegar þeim er neitað um flugfar, flugi er aflýst/eða seinkað um ákveðinn tíma. Slík réttindi eru m.a. réttur til aðstoðar, endurgreiðslu á flugmiða og til greiðslu staðlaðra skaðabóta að vissum skilyrðum uppfylltum. Í ljósi fjárhagserfiðleika flugfélagsins þá er ólíklegt að það muni hafa burði til að greiða skaðabætur eða endurgreiða flugmiða. Vegna slæmrar stöðu flugfélagsins gæti sú staða komið upp að flugfarþegar sem lenda í seinkunum eða aflýsingu þyrftu að standa straum af aukakostnaði vegna þess út eigin vasa. Þegar slíkt gerist getur verið ráðlegt fyrir farþega að hafa samband við tryggingarfélag sitt og athuga hvort viðkomandi sé tryggður fyrir slíkum aukakostnaði í gegnum eigin tryggingar.

Hvert get ég leitað eftir aðstoð ef ég lendi í erfiðleikum?
ECC-Netið mun halda áfram að aðstoða neytendur með kvartanir gegn fyrirtækinu, að minnsta kosti þangað til flugfélagið hefur verið formlega úrskurðað gjaldþrota.

Þegar frekari fregnir berast af stöðu mála þá munum við uppfæra upplýsingar um hvernig farþegar geta sent inn kvartanir til félagsins.

ECC Flokkun: 
Ferðalög / Flugfarþegar