Úttekt af greiðslukorti

Hlutverk greiðslukorta í viðskiptum verður sífellt veigameira og stór hluti greiðslu fyrir vörur og þjónustu er inntur af hendi með greiðslukortum. Einnig hefur áhugi neytenda á netverslun stóraukist og líklegt er að notkun greiðslukorta spili þar stórt hlutverk. Þegar keyptar eru vörur á netinu eru þó líklega margir hræddir við að gefa upp kortaupplýsingar enda veit fólk kannski ekki alltaf hver móttakandinn er og óttast að mögulega sé óprúttinn aðili bakvið tölvuskjáinn. Ef svo fer við notkun á greiðslukorti að röng upphæð er skuldfærð, keypt vara berst ekki eða úttekt er gerð án heimildar stendur kortahafi þó ekki uppi án allra varna og það eru viss úrræði sem hann getur gripið til.

Hvernig virka greiðslukort?

Í stuttu máli fara viðskipti með greiðslukortum fram með þeim hætti að útgefandi þeirra (t.a.m. banki) gefur út kort handa viðskiptavinum sínum og korthafi verður að undirgangast ákveðnar notkunarreglur. Þegar kortið er notað í viðskiptum við verslun er beiðni send til útgefanda kortsins um að verða við ósk söluaðilans um að millifæra ákveðna fjárhæð af reikningi korthafa með milligöngu færsluhirðis.

Chargeback

Endurgreiðsla á kort, eða „chargeback“ má skilgreina sem endurgreiðslu á kortafærslu vegna þess að móttakandi greiðslunnar hefur t.a.m. ekki uppfyllt vissar skyldur sem seljandi, eða ef notkun korts fer í bága við reglur. Það má segja að endurgreiðslan eigi sér stað á milli útgefanda viðkomandi korts og færsluhirðisins, sem er það fyrirtæki sem tekur við kortafærslunum og greiðir þær til þjónustuaðila, en seljandinn sjálfur og korthafinn eru því ekki í beinum samskiptum þegar chargeback er beitt. Rétt er að benda á að þrátt fyrir að hægt sé að endurheimta fjármuni með þessum hætti þá leiðir það eitt ekki sjálfkrafa til þess að samningi milli korthafa og seljanda sé rift. Söluaðili gæti því haldið áfram að innheimta skuld með öðrum leiðum, þrátt fyrir að greiðslu með korti hafi verið hafnað.

Í hvaða tilvikum er hægt að beita chargeback?

Það er ekki svo að korthafi geti ávallt óskað eftir endurgreiðslu vegna hverskonar annmarka sem kunna að verða af hendi seljanda. Það fer bæði eftir lögum og þeim skilmálum sem gilda um kortaviðskipti í hvaða tilvikum chargeback kemur til skoðunar.

Lög um greiðsluþjónustu

Í lögum um greiðsluþjónustu, sem byggja á Evróputilskipun og eru því svipuð um alla Evrópu, er kveðið á um að úrræðið komi til skoðunar þegar t.a.m. um óheimila greiðslu í skilningi laganna er að ræða. Jafnframt kemur fram í lögunum að korthafi skuli ekki bera það tjón sem hlýst af notkun korts sem týnist, er stolið eða nýtt með óréttmætum hætti eftir tímamark tilkynningar hans til greiðsluþjónustufyrirtækis. Þar kemur hinsvegar fram að korthafi gæti sjálfur þurft að bera kostnað sem nemur 150 evrum vegna óheimilaðrar kortafærslu ef kort tapast eða því er stolið, eða ef hann hefur ekki gætt nauðsynlegra varúðarráðstafana til að tryggja persónubundna öryggisþætti. Ef korthafi, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, lætur ekki vita þegar kort tapast eða gætir ekki persónuupplýsinganna getur hann þurft að bera allan kostnað sem hlýst af óheimiluðum greiðslum. Ef notandi hefur t.a.m. slegið inn PIN-númer sem hann einn veit, ásamt þeim sem hann hefur veitt heimild til notkunar kortsins, þá getur yfirleitt verið nokkuð auðvelt að sannreyna hvort um óheimila greiðslu sé að ræða eða ekki. Ef óprúttinn aðili kemst hinsvegar yfir PIN-númer korthafa og nýtir kortið án heimildar kæmi t.a.m. til skoðunar hvort korthafi hafi gætt nauðsynlegra varúðarráðstafana eða hvort um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða. Það er því mikilvægt að tilkynna strax ef kort glatast og gæta að því að tryggja að gefa ekki hverjum sem er öryggisupplýsingar eða geyma þær á óöruggum stað.

Skilmálar kortafyrirtækjanna

Í skilmálum kortafyrirtækjanna er kveðið nánar á um hvenær er mögulegt að beita chargeback. Í flestum skilmálum kemur t.a.m. fram að ef söluaðili er ófús eða ófær um að inna af hendi vöru eða þjónustu sem korthafi hefur greitt fyrir með kreditkorti, atburði er aflýst eða söluaðili er hættur rekstri, þá getur korthafi sent skriflega kvörtun til útgefanda. Í skilmálum eru mismunandi tímafrestir veittir, en algengt er að korthafi hafi frá 30 og upp í 90 daga eftir að afhending vöru eða þjónustu átti að eiga sér stað til að senda skriflega kvörtun til útgefanda. Kortafyrirtækin undanskilja sig þó yfirleitt allri ábyrgð sem viðkemur gæðum á vöru eða þjónustu, eða vegna annarra vanefnda seljanda þegar greitt er fyrir með korti og ef ágreiningur rís um það verða korthafi og seljandi yfirleitt að leysa slík deilumál sín á milli eða með öðrum leiðum.

Ef korthafi glatar korti sínu og það hefur verið notað af óviðkomandi aðila áður en hvarf þess er tilkynnt ber korthafi sjálfsábyrgð að upphæð 150 evra. Ef korthafi hefur ekki varðveitt PIN-númer sitt í samræmi við reglur kortafyrirtækja, t.a.m. með því að geyma PIN-númerið með korti sínu eða segja öðrum númer sitt, þá er korthafi ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með PIN-númeri samkvæmt skilmálum. Rétt er þó að benda á að samkvæmt lögunum er talað um að korthafi verði að gæta nauðsynlegra varúðarráðstafana varðandi persónuupplýsingar. Það getur því verið matsatriði hvenær þeim áskilnaði er fullnægt og það verður áhugavert að fylgjast með hvernig það mat mun þróast í meðferð úrskurðarnefnda og, eftir atvikum, dómstóla. Í því samhengi má velta fyrir sér hvernig notendum er gert kleift að tryggja persónubundna öryggisþætti greiðslukorta og hversu örugga aðstæður seljendur vöru og þjónustu eru að skapa. Korthafi er þó ekki ábyrgur fyrir notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað, nema hann hafi sýnt af sér sviksama háttsemi. Ef upp kemur ágreiningur milli íslensks korthafa og kortafyrirtækis varðandi chargeback getur korthafi skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem hýst er hjá Fjármálaeftirlitinu. 

ECC Flokkun: 
Kaup á netinu