Um sérstaka „ábyrgð“ seljanda, en t.a.m. getur verið um að ræða tíu ára ábyrgð á lakki bifreiða, fimmtán ára ábyrgð á dýnugormum o.s.frv., er svo fjallað í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, en þau lög fela í sér innleiðingu á Evróputilskipun og eru því sambærileg á öllu EES svæðinu. Þar segir að seljandi megi ekki veita sérstaka ábyrgð nema hún veiti meiri rétt en kaupandi á samkvæmt lögum. Lögbundinn réttur neytanda til að fá bætt úr galla er því ekki sérstök „ábyrgð“ seljanda heldur er „ábyrgð“ loforð um að kaupandinn fái meiri rétt en hann á lagalega kröfu á.
Ef seljandi tekur svo sérstaka ábyrgð á vöru sem hann selur þarf hann að upplýsa neytanda um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett fyrir því að neytandi geti fengið úrbætur á grundvelli ábyrgðarinnar. Að því marki sem slík skilyrði teljast ekki ósanngjörn getur seljandi því sett ákveðin skilyrði fyrir því að ábyrgðin gildi. Virði neytandinn svo ekki slík skilyrði getur það valdið því að „ábyrgð“ falli niður, en eftir sem áður er lögbundinn réttur neytandans til úrbóta vegna galla til staðar.