Úrræði & eftirlit

Það er Neytendastofa sem hefur eftirlit með viðskiptaháttum samkvæmt lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Neytendastofa úrskurðar hins vegar ekki um einkaréttarlegar kröfur, þ.e. segir ekki beinlínis að seljandi eigi að endurgreiða neytanda X kr., eða þvíumlíkt.

Lúti ágreiningur svo ekki beint að þeim lögum, heldur er t.a.m. um það að ræða að varan er gölluð í skilningi laga um neytendakaup – þ.e. um „venjulegan“ galla er að ræða en ekki vandamál sem tengist því beint að varan er keypt á netinu – þá er ekki neinn aðili sem hefur beinlínis eftirlit með þeim lögum en hægt er að leggja ágreininginn fyrir kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, en þó er rétt að hafa í huga að álit þeirrar nefndar eru því miður ekki bindandi.

Sé um að ræða „millilandaviðskipti“ – þ.e. viðskipti við erlenda seljendur er svo rétt að leita til ECC-netsins, en ef um er að ræða viðskipti við innlend fyrirtæki er hægt að fá ráðleggingar og aðstoð hjá Neytendasamtökunum.

Þá er einnig rétt að skoða sérstaklega hvaða úrræði eru í boði, og hvort hægt sé að leita hjálpar hjá útgefanda greiðslukorts þegar greiðsla vöru hefur farið fram með þeim hætti. 

Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.