Áður en kaup fara fram

Flestir seljendur  eru heiðarlegir og yfirleitt ganga netviðskipti vandræðalaust fyrir sig. Því miður eru þó undantekningar á því og því mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Í lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga segir m.a. um þær upplýsingar sem neytandi á að fá fyrir samningsgerð:

 „Neytandi á rétt á eftirfarandi upplýsingum innan hæfilegs frests áður en samningur, sem lög þessi taka til, er gerður:

  1. Nafn og heimilisfang seljanda.
  2. Helstu eiginleikar vöru eða þjónustu sem samningurinn fjallar um.
  3. Verð vöru eða þjónustu, þar með talin öll opinber gjöld, svo og afhendingarkostnaður, ef það á við. 
  4. Fyrirkomulag á greiðslum, afhendingu og hvenær hún fer fram.
  5. Réttur til að falla frá samningi, sbr. þó ákvæði 10. gr.
  6. Kostnaður við að nota fjarskiptaaðferð þar sem hann er reiknaður á annan hátt en sem grunngjald.
  7. Gildistími tilboðsins og tilboðsverðsins.
  8. Lágmarksgildistími samningsins.

Upplýsingar sem getið er um í 1. mgr. skulu vera skýrar og greinargóðar og vera aðgengilegar neytanda.“

Séu þessar upplýsingar ekki veittar er því kannski tilefni til að hafa áhyggjur. Þegar t.d. hvorki nafn, heimilisfang, eða netfang seljanda kemur fram á síðunni áður en samningur er gerður má t.d. ætla að erfitt sé að hafa uppi á seljanda til að kvarta vegna galla eða skila vörunni.

Hvað varðar verð vörunnar er rétt að hafa í huga að verðið sem birtist á heimasíðum vefverslana er oftast ,,berstrípað" verð. Eftir er að leggja við kostnað vegna pökkunar og flutnings og svo bætist virðisaukaskattur við að ógleymdu tollmeðferðargjaldi. Vegna margra vöruflokka þarf jafnframt að greiða toll. Þegar upp er staðið er því ekkert endilega víst að hagstæða netverðið sé svo hagstætt eftir allt. Gott er að kynna sér hvert endanlegt verð vörunnar, með öllum þessum aukagjöldum, kemur til með að verða en það er t.d. hægt að komast að því í reiknivél á síðu Tollstjóra.

Þá er mikilvægt að kynna sér vöruna eins vel og hægt er, t.a.m. með því að lesa umsagnir annarra neytenda eða „gúggla“ upplýsingar um hana. Sama á í raun við um seljandann en netverjar eru duglegir að tjá sig um slæma reynslu af ákveðnum seljendum og vara aðra við sé um svik að ræða. 

Tengdar fréttir

Alþjóðadagur neytendaréttar

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi.


Dagur netöryggis

Á hverju ári er haldinn alþjóðadagur netöryggis, en tilgangur hans er að stuðla að öruggari notkun internetsins og snjallsíma. 

Netverslun er sífellt að aukast og neytendur eru í auknum mæli farnir að kaupa sér vörur í tölvunni heima hjá sér, enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að versla sér varning án þess að þurfa að gera sér sérstaka ferð í verslunina sjálfa. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.


Neytendur og netgildrur

Evrópskir neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á villandi og ágengum auglýsingum á internetinu og á samfélagsmiðlum. Neytendur verða að gæta að sér gagnvart slíkum gylliboðum svo þeir lendi ekki í því að greiða fyrir vörur eða áskrift sem þeir hafa ekki áhuga á.

ECC-Netið hefur því búið til stutt myndbrot sem hjálpar neytendum að koma auga á slíkar gildrur.