Vandræði við bílaleigu

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:30
Íslenska

Íslenskur maður leigði bíl í Þýskalandi.  Hann skilaði bílnum á flugvellinum þar sem starfsmaður bílaleigunnar tók við lyklunum og spurði manninn hvort allt væri í lagi og maðurinn jánkaði því.  Þegar maðurinn kom heim sá hann sér til furðu að bílaleigan hafði dregið út af kortinu hans um 115.000 krónur. Kom í ljós að færslan hafði verið send inn aðeins um klukkutíma eftir skil bílsins. Manninum barst svo bréf frá bílaleigunni 10 dögum seinna um að skemmd hefði verið aftan á bílnum og að áætlaður viðgerðarkostnaður væri um 115.000 krónur.  Með bréfinu fylgdi mjög óljós mynd af afturhluta bílsins en af henni var ómögulegt að sjá hvað var um ræða.  Engin dagsetning var á myndinni né mynd af kílómetrastöðu bílsins. Þar sem maðurinn kannaðist ekki við að hafa valdið skemmd á bílnum, leitaði hann til ECC á Íslandi sem sendi málið út til Þýskalands.  Maðurinn krafðist fullrar endurgreiðslu eða frekari sannana á tjóninu.  Þar sem bílaleigan gat ekki fært frekari sönnur á tjónið var færslan bakfærð að fullu.

ECC Categories: