Skrítin krafa frá bílaleigu

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:00
Íslenska

Íslenskur ferðamaður leigði bíl á ferðalagi sínu í Bretlandi og skilaði bílnum án nokkurra vandræða. Eftir að hann var kominn heim sendi lögreglan Í Yorkshire á Englandi fyrirspurn til bílaleigunnar og óskaði eftir upplýsingum um hver hefði verið skráður leigjandi bílsins á þeim tíma sem um ræddi. Fyrir að veita lögreglunni þessar upplýsingar innheimti bílaleigan 36 pund vegna  svokallaðs „administration fee“ hjá ferðamanninum. Hann hafði þá samband við lögregluna og var tjáð að engin sekt væri skráð á bílinn. Einnig kom í ljós að það væri ómögulegt að bíllinn hefði verið á þeim stað þar sem meint brot var framið en sá staður var 362 km frá bílaleigunni, en bílnum hafði einungis verið ekið 283 km meðan á leigutímanum stóð. Bílaleigan neitaði þó að endurgreiða ferðamanninum gjaldið þrátt fyrir að það væri ómögulegt að hann hefði átt einhvern hlut að máli og þótt lögreglan hefði staðfest að það væri engin eftirlýsing eða sekt skráð á bílinn. Ferðamaðurinn leitaði þá til ECC á Íslandi og óskaði eftir aðstoð. ECC-netið áframsendi málið til kærunefndar í Englandi og lauk því með því að bílaleigan endurgreiddi ferðamanninum hið umdeilda gjald.

ECC Categories: