Skiptir máli hvort einstaklingur eða fyrirtæki er skráð sem kaupandi?

Íslenska
Answer: 

Öðru hvoru  berast erindi frá fólki sem stundar einhvers konar rekstur og hefur keypt vörur til einkanota í gegnum reksturinn. Það er t.d. vinsælt að kaupa tölvur í gegnum fyrirtæki en það sem fólk áttar sig oft ekki á er að sé vara keypt í gegnum rekstur er réttarstaðan ekki sú sama og ef fólk festir persónulega kaup á vörunni. Á þetta getur reynt ef varan reynist gölluð.

Ef einstaklingur kaupir vöru gilda lög um neytendakaup
Þegar einstaklingur kaupir vöru til einkanota falla kaupin undir lög um neytendakaup. Samkvæmt þeim er kvörtunarfrestur vegna galla á vöru aldrei styttri en 2 ár og í sumum tilvikum er kvörtunarfresturinn 5 ár þegar vörunni er ætlaður verulega lengri líftími, eins og á til dæmis við um þvottavélar og ísskápa. Ekki er hægt að semja um styttri kvörtunarfrest þar sem lögin eru ófrávíkjanleg.

Ef fyrirtæki kaupir vöru gilda lög um lausafjárkaup
Kaupi fyrirtæki hins vegar vöru falla þau kaup undir lög um lausafjárkaup. Samkvæmt þeim er kvörtunarfrestur kaupanda umsemjanlegur og oftast er sá tími ekki lengri en eitt ár. Kaupi einstaklingur vöru í gegnum fyrirtæki er hann eðli málins samkvæmt skilgreindur sem fyrirtæki og nýtur því ekki þeirrar neytendaverndar sem neytendum er veittur.  Kaupi fólk vörur til einkanota í gegnum fyrirtæki  getur það afsalað sér dýrmætum rétti. Fólk þarf því að hafa í huga hvernig vara verður notuð áður en hún er keypt. Sé varan ætluð til persónulegra nota getur verið farsælast að neytandinn kaupi hana sjálfur og njóti þannig góðs af neytendavernd laganna.