Hver er munurinn á ábyrgð og kvörtunarfresti?

Íslenska
Answer: 

Ábyrgð og kvörtunarfrestur eru í raun ólíkir hlutir sem ekki ætti að rugla saman. Ekki er heimilt að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu nema verið sé að bjóða meira en neytandi á rétt á samkvæmt lögum. Vara, á borð við t.d. dýnu eða eldhúsinnréttingu, getur þannig verið markaðssett og seld með tíu ára ábyrgð, ef til vill aðeins á einstökum hlutum hennar. Neytandi getur kvartað yfir galla á vöru í tvö, eða eftir atvikum fimm, ár frá því hann veitir henni viðtöku, að því gefnu að hann tilkynni um gallann innan hæfilegs tíma og að um galla, en ekki t.a.m. eðlilegt slit, sé að ræða. Ekki er því heimilt að auglýsa ábyrgð á vöru nema í ábyrgðinni felist raunverulega eitthvað meira en neytandinn á lagalegan rétt á. Ef í raun er bara verið að tala um tveggja, eða eftir atvikum fimm ára, kvörtunarfrest vegna galla ætti ekki auglýsa hann sem „ábyrgð“. Kvörtunarfrestur er einfaldlega lögbundinn óháð yfirlýsingum seljanda og verksmiðjuábyrgð, en ekki má semja um að neytandi eigi minni rétt en ráða má af lögunum.