Franskri fjölskyldu neitað um far

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:45
Íslenska

Frönsk fjölskylda keypti flug með íslensku flugfélagi frá París til Keflavíkur og þaðan til Boston.  Við innritun í París voru þau krafin um heimilisfangið sem þau ætluðu að dvelja á í Boston og var sú skýring gefin að nettenging flugvallarins lægi niðri. Heimilisfangið höfðu þau ekki á sér en þau höfðu verið búin að fylla út rafræna ESTA ferðaheimild sem farþegum frá flestum löndum í Evrópu sem eru í svokölluðu Visa Waiver Program er skylt að fylla út fyrir brottför til að mega ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar í 90 daga eða minna. Í ESTA heimildinni er skylda að taka fram heimilisfang gististaðar í Bandaríkjunum, og það hafði fjölskyldan gert.  Þegar þau gátu ekki gefið upp umrætt heimilisfang á flugvellinum var þeim synjað um far sem varð til þess að þau þurftu að fara í flug næsta dag. Viðbótarkostnaður vegna þess var 1.205 Evrur. Eftir ferðina krafðist fjölskyldan umrædds kostnaðar til baka frá flugfélaginu sem hafnaði beiðni hennar án skýringa.  Hún leitaði þá til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar í Frakkalandi sem sendi málið til ECC-Íslands sem sendi flugfélaginu bréf.  Rúmlega einum og hálfum mánuði síðar samþykkti flugfélagið að greiða viðbótarkostnað fjölskyldunnar eða 1.205 evrur.

ECC Categories: