Ekki boðið upp á tryggingu?

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 15:15
Íslenska

Tvær konur frá Bretlandi leigðu bílaleigubíl á Íslandi. Þegar þær sóttu bílinn á Keflavíkurflugvelli afþökkuðu þær viðbótartryggingu sem nær meðal annars yfir framrúðutjón. Konurnar lentu í miklum stormi á milli Hafnar og Djúpavogs. Næsta morgun tóku þær eftir talsverðum sandskemmdum á vinstri hlið bílsins, bæði að framan og aftan. Þegar þær skoðuðu skilmála leigusamningsins kom þeim á óvart að hvergi var minnst á tryggingu fyrir sand-/öskuskemmdum. Þá höfðu þær ekki verið varaðar við þegar þær tóku bílinn að gera mætti ráð fyrir slíkum skemmdum við vissar aðstæður. Konurnar voru í kjölfarið rukkaðar um tæplega 800.000 krónur fyrir áætluðum viðgerðarkostnaði. Þær kvörtuðu skriflega til bílaleigunnar sem harmaði atvikið og baðst afsökunar á að þeim hefði ekki verið boðin sand-/öskutrygging. Sjálfsábyrgð slíkrar tryggingar væri 170.000 kr. og hefði tryggingin kostað þær um 10.000 kr. Bílaleigan lofaði að endurgreiða konunum 616.000 kr. sem var áætlaður viðgerðarkostnaður að frádreginni sjálfsábyrgð og kostnaði við töku tryggingarinnar. Engin greiðsla barst þó. Leituðu konurnar því til ECC í Bretlandi sem sendi málið til ECC á Íslandi. Eftir milligöngu ECC endurgreiddi bílaleigan konunum 616.000 kr. auk 45.000 kr. vegna misræmis á gengi.

ECC Categories: