Óviðráðanleg seinkun?

Þriðjudagur, 8. desember 2015 - 16:00
Íslenska

Hollensk systkini keyptu sér flug frá Amsterdam til Keflavíkur og aftur heim með íslensku flugfélagi. Á heimleiðinni seinkaði fluginu um átta tíma og mátti rekja seinkunina til þess að hleðslubíl var ekið á flugvélina. Flugfélagið sá farþegum fyrir máltíðum og hótelgistingu meðan beðið var í samræmi Evrópureglugerð 261/2004 en neitaði að greiða 400 evrur í skaðabætur. Systkinin leituðu þá til ECC í Hollandi sem sendi málið til ECC á Íslandi sem fór fram á umræddar bætur frá flugfélaginu. Flugfélagið hafnaði greiðslu bóta á þeim forsendum að um óviðráðanlegt atvik væri að ræða. ECC-Ísland leitaði þá til Samgöngustofu til að fá álit á málinu og fékk þá þær upplýsingar að Samgöngustofa hefði nú þegar eins mál (aðrir farþegar með sama flugi) til meðferðar og ákvörðunar væri að vænta innan skamms. Því var ákveðið að bíða eftir niðurstöðu þess máls. Ákvörðunin var svo þess efnis að atvikið gæti ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna. Í meginatriðum taldi Samgöngustofa hleðslu flugvéla tilheyra venjulegri starfsemi flugfélagsins og bæri því að tryggja að staðið væri að starfseminni með fullnægjandi hætti. Túlka yrði óviðráðanleg ytri atvik þröngt s.s. náttúruhamfarir eða önnur hliðstæð atvik sem ekki væri hægt að forðast með venjulegum ráðstöfunum. Óhappið sem olli hinni umdeildu seinkun hafi átt sér stað vegna mannlegra mistaka starfsmanns flugfélagsins og ekki þætti rétt að láta farþega bera hallann af því. Þegar þessi ákvörðun lá fyrir fór ECC-Ísland aftur fram á bætur fyrir hönd systkinanna frá Hollandi og vísaði þar til fyrrgreindrar ákvörðunar. Flugfélagið brást skjótt við og greiddi umræddar bætur, alls 800 evrur.

ECC Categories: